22.3.2023

Forseti þjóðþings Ungverjalands heimsækir Alþingi

 

Forseti þjóðþings Ungverjalands, László Kövér, er í opinberri heimsókn á Íslandi dagana 21.–24. mars ásamt sendinefnd í boði forseta Alþingis.

Forseti ungverska þjóðþingsins heimsótti í gær forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, á Bessastaði. Í morgun átti þingforsetinn og sendinefnd fund með Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, og fundaði með formönnum þingflokka. Frá Alþingi lá leiðin til fundar í utanríkisráðuneyti og að þeim fundi loknum bauð Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, til hádegisverðarfundar, með þátttöku 1. varaformanns utanríkismálanefndar og formanns Íslandsdeildar NATO, Njáli Trausta Friðbertssyni. Þá var forseti þjóðþings Ungverjalands á þingpöllum við upphaf þingfundar, eins og hefð er fyrir við slíkar heimsóknir.

Á öllum fundum bar stöðu öryggismála í Evrópu hátt. Forseti Alþingis ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda og þingsins við Úkraínu, sem og stuðning Alþingis við umsóknir Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Þá var rætt um hlutverk og mikilvægi Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins og ítrekaði Birgir Ármannsson mikilvægi grunngilda þess um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið.

Á morgun mun þingforsetinn og sendinefnd m.a. heimsækja Þingvelli og kynna sér hagnýtingu jarðhita á Íslandi en heldur svo af landi brott á föstudagsmorgun.

Heimsokn-forseta-ungverska-thingsins_1Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og László Kövér, forseti þjóðþings Ungverjalands, spalla saman með aðstoð túlksins Andrea Rohály.

Heimsokn-forseta-ungverska-thingsins_4Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, á tali við forseta þjóðþings Ungverjalands, László Kövér. Andrea Rohály túlkar.